Hugleiðing Ísaks Harðarsonar um sýningu í Gallerí Anima 2006:

Í einni af hinum ævafornu goðsögum, er Johan Ekkisen fann fyrir skömmu, segir frá Bogakonunni fráneygu. Einbeitt sem rakblað leggur hún ör á streng og miðar á sólina sjálfa. Dimmeygur drengur spyr hvers vegna í ósköpunum hún vilji skjóta þennan bjartasta ljósgjafa á jarðhimni, og án þess að hvika auga eitt blik frá markinu, svarar Bogakonan gullskærri röddu: “Svo henni blæði út en ekki inn!”

Hviss! ­ og örin þýtur. Og sem ég lýk upp augunum er ég staddur á velli. Sá völlur er hvort tveggja í senn, vígvöllur leikvöllur. Hér er nektin nöktust, kvikan kvikust og berskjöldurinn glærastur. Hér birtast mér fyrirbæri sem mig hefur áður varla grunað: gleðileg skelfing og skelfileg gleði (en reyndar er ég mjög nærsýnn). Og ekkert er hér stirt og kyrrt; allt er gagntekið hinum kviku sporðaköstum atómanna.

Ísak Harðarson