KJARNI MÁLSINS

Hugleiðing Halldóru Kristínar Thoroddsen um sýningu í Duus húsi,Reykjanesbæ  2007:

Form er innihald, innihald er form. Sem aldrei fyrr lýkst sá sannleikur upp fyrir tímanum. Efnisagnir eru upplýsingar í tómi leitandi að sinni samsvörun. Getum við talað um þrá efnsins? Náttúrulífsmálarinn Björg Örvar fjallar um kjarna málsins. Hið smæsta og hið stærsta. Alheim og öreind. Í hugleiðsluástandi skynjum við stundum að innst inni erum við hið sama og umhverfi okkar, örsaga í því heildarverki, byggð því sama efni. Maður, jörð og alheimur eru eitt. Engin skil: bleikar himnur og blóðugt æðaflos smýgur um dumb steinefni og vellur úr jarðargróðri, springur út í sólgosum. Náttúrulífsmálarinn, sem önnur mannanna börn, hefur löngum verið svo flæktur í viðfang sitt að hann skynjar ekki þær menningarlegur viðbætur sem hann hleður inn á myndir sínar. Áhrifamikil landslagsmynd er í eðli sínu tískuteiknun og segir gjarnan meira um tímana og menninguna en náttúruna sjálfa.

Hér virðist gerð tilraun til náttúru á eigin forsendum, sem rúin er menningu. En mótsögnin gín við. Við nánari skoðun er sterk sögn í þessum myndum og þrátt fyrir tímalausan sannleika sem sögnin inniber er hún á sinn hátt menningarleg afurð. Að allt sé eitt, er niðurstaða helstu hugsuða heims. Hún er ekki ný en hér er hún studd nýjum rökum sem liggja í tímanum og myndmálið er ferskt og frumlegt.

Í þessum myndum er sýnin hugleiðslukennd en samt alltaf hérna megin. Fagurfræðin er ögrandi, hangir
á ystu nöf en fer ekki yfir mörkin. Hér fer stríðinn málari. Á þessari sýningu er mætt til leiks rauð agressjón. Björg hefur fyrrum málað okkur græna mildi og blátt afskiptaleysi. Hvernig sem þessir litir kunna að hitta okkur fyrir eru þeir alltaf um það bil að bresta á límingunum en halda þó.

Það er erfitt að mæla Björgu hillupláss í stefnu­úrvali myndlistarheimsins. Hér dugir engin ættfærsla, til þess er höfundurinn of sérsinna, þó að hann standi föstum fótum í hringiðunni miðri, dorgandi jafnt úr fagurbókmenntum, tónlist, vísindum og sjónrænum listum. Tilraunir hennar minna kannski helst á tilraunir sumra tónlistarmanna þegar þeir fara inn í tóninn og bjaga fram á bjargbrún, til þess að finna mörkun á milli þess að vera tónn eða bara hljóð.

Halldóra Kristín Thoroddsen, skáld og rithöfundur