NÁTTÚRA Í VERÐANDI SINNI

eftir Aðalstein Ingólfsson

Björg Örvar tilheyrir þeim hópi íslenskra myndlistarmanna sem fram kom undir merkjum „nýja málverksins“ upp úr miðjum níunda áratugnum. Þegar frá leið varð ljóst að upplegg hennar var nokkuð á skjön við áhugamál helstu talsmanna hópsins. Ásamt nokkrum skólafélögum sínum úr Myndlista-og handíðaskólanum, m.a. Jóni Axel og Valgarði Gunnarssyni, fann hún sér smám saman myndlistarlegt afdrep til hliðar við hömlulausa, fígúratífa og umfram allt þjóðfélagslega gagnrýna málaralist margra félaga sinna. Hver með sínum hætti leituðust þessir „undanvillingar“ við að virkja hið nýja frelsi sem málaralist samtímans hafði fært þeim upp í hendurnar til tjáningar á einkalegum, raunar tilvistarlegum, viðhorfum fremur en samfélagslegum.

Þetta á ekki síst við um Björgu. Að sönnu tók hún fegins hendi þeim möguleikum sem fólust í uppspenntu litrófi lita og uppbroti viðtekins myndmáls. Hins vegar hentaði henni ekki að finna hugmyndum sínum farveg í dramatískum myndum af fólki og viðburðum, eins og þorri félaga hennar gerði á þeim tíma. Í litríkum málverkum sínum frá 1988-90 steypir Björg saman ýmsum þáttum bæði úr umhverfinu allt um kring og eigin hugskoti uns hún er með í höndunum einhvers konar samnefnara fyrir það sem henni finnst. Hvað það er nákvæmlega liggur hins vegar ekki í augum uppi, a.m.k. ekki í fyrstu. Listakonan byggir upp upp ákveðið frumlag á myndfletinum, vinnur það áfram uns áhorfandinn þykist geta borið á það kennsl og skynjað samhengi þess. Þá er það sem hún slær á væntingar hans, tekur stefnuna í aðra og óræðari átt og skilur okkur eftir í lausu lofti. Það sem flækir enn frekar viðræðusamband áhorfandans við þessi verk er sá háttur Bjargar að skeyta saman tvo eða fleiri striga, misjafnlega stóra, sem eykur á innbyrðis sundurgerð og um leið framandleika heildarinnar.

Sannfæringarkraftur þessarar „frumsköpunar“ sem hér birtist liggur hvorttveggja í kröftugum pensildráttunum og kunnáttusamlegri úrvinnslu litanna. Þegar upp er staðið líkjast sköpunarverk hennar engu sem við þekkjum; eru marktækur viðauki við heimsmynd okkar fremur en einhvers konar tilbrigði um hana, eins er raunin með flest óhlutbundin verk. Það sem Björg gerir hér á í rauninni meira skylt við ljóðagerð ákveðinnar tegundar en myndlist, þar sem rithöfundur dregur saman sértæk og einöngruð hugtök, framandi lýsingarorð og sjaldgæf nafnorð og stillir þeim þannig saman að þau öðlast merkingu sem okkur óraði ekki fyrir. Sem minnir okkur auðvitað á að Björg er meðal örfárra málsmetandi ljóðskálda í hópi myndlistarmanna. Skipuleg endurtekning þessa sértæka líkingamáls gæðir það síðan myndugleika og eigin merkingu, gerir að verkum að við tökum það gilt nákvæmlega eins og það kemur okkur fyrir sjónir, ekki ósvipað og staka tölustafi eða bókstafi. Þessi „sköpun merkingar“ úr hinu huglæga er eitt af æðstu markmiðum sérhvers myndlistarmanns, eftir því sem Paul Klee segir.

Talandi um Klee og arfleifð hans, þá er Björg einn af fáum myndlistarmönnum sem ég þekki sem hefur athafnað sig á merkingarsvæðinu milli ritmáls og myndmáls. Þar á ég við myndröðina Tákn um siðferðisþrek, sem listakonan gerði á árunum 1994-5. Það sem tengir þessar myndir saman er undirliggjandi rúðunet lína og lita, sem bæði gæðir myndirnar festu og vekur upp hugmyndina um staðfestuna“, meginforsendu siðferðisþreks. Ofan á þetta net eru teiknuð heimatilbúin „tákn“ Bjargar fyrir þessa mikilvægu dyggð, sem eru jafn óræð og sértæk eins og allar fyrirliggjandi skilgreiningar á henni.

Frá síðustu aldamótum hefur Björg ræktað sinn garð af meiri einurð og elju en flestir myndlistarmenn sem ég þekki. Þar hefur hún án nokkurs efa notið góðs af vinnustöð sinni á Stokkseyri, litlu húsi sem hún hefur sniðið að þörfum sínum. Það má velta því fyrir sér hvort dvölin þar, með brimið, síkvikt þangið og fuglager á aðra hönd og lænur, grös og dýjagróður á hina, hafi hrint af stað þeirri þróun í átt til greiningar „náttúrulífs“, í víðasta skilningi, sem átt hefur sér stað í verkum hennar undanfarinn áratug og til þessa dags.

Eins og Halldóra Thoroddsen rithöfundur kemst að orði í skemmtilegri hugleiðingu um verk Bjargar árið 2006, þá fylgja náttúrulífsmyndir hennar ekki viðtekinni menningarlegri forskrift, heldur eru þær tilraunir til að fjalla um „náttúru á eigin forsendum“, með öllum þeim mótsögnum sem slíkri framkvæmd fylgja. Það er einungis hægt að gera með því að rjúfa sambandið milli náttúru, rauntíma og samfélags, og opna í staðinn fyrir víðustu skynjun tilvistar, þar sem náttúran og við erum í sameiningu einungis „efnisagnir….í tómi leitandi að sinni samsvörun“ eins og Halldóra segir í áðurnefndi grein. Í málverkum Bjargar skarast alheimur og smáheimur, bakteríugróður og stjörnuþokur, líkaminn hið innra og ytra og jarðkringlan hið innra og ytra: allt er eitt og verðandi. Þessi niðurstaða listamannsins er í eðli sínu trúarleg, eða að minnsta kosti á hún sér samsvörun í mörgum helstu trúarbrögðum mannkyns, svo og listaverkum víðsýnna listamanna á borð við Kandinsky.

Það sem er skemmtilega tvíbent við þessi mjög svo óefniskenndu fyrirbæri sem Björg þyrlar upp á dúka sína er það sem ég mundi kalla „líkamleg nánd“ þeirra. Hér á ég fyrst og fremst við litróf blóðsins, lífsins vökva, sem notað er sem orkulind þeirra umbreytinga sem eiga sér stað í málverkum listakonunna; blæbrigði þess spanna allan litarháttinn frá blóðrauða hjartans til blóðmuru rósaættarinnar og blóðsteina ólífrænnar náttúru. Ekki er síður áhrifamikil hantéring Bjargar á þessu litrófi, fjölbreytt áferð og mynsturgerð þar sem verkfærum málarans er beitt með óhefðbundnum hætti, í senn afdráttarlaust og ofur blíðlega.

Aðalsteinn Ingólfsson